GOG er nú í þjálfaraleit eftir að ljóst varð að Nicolej Krickau, núverandi þjálfari liðsins, myndi taka við stjórnartaumunum hjá þýska stórliðinu Flensburg að yfirstandandi tímabili loknu.
Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals og fyrrum leikmaður GOG, hefur átt í viðræðum við forsvarsmenn GOG en einnig HSÍ um að gerast næsti landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins. Snorri er ekki einn af þeim þremur erlendu þjálfurum sem Nyegaard setur fram sem bestu valkosti GOG.
Nyegaard, sem þjálfaði á sínum tíma lið Fram og ÍR hér á landi og kenndi við Fjölbrautskólann í Breiðholti, telur að Íslendingarnir Aron Kristjánsson og Arnór Atlason séu tveir af þeim þremur bestu erlendu þjálfurum sem forsvarsmenn GOG gætu sótt. Hann setur fram sinn lista, yfir það hvaða erlendu þjálfara hann vill sjá hjá GOG, í samtali við TV2 Sport.
„Aron Kristjánsson er stórt nafn þegar kemur að handbolta hér í Danmörku. Hér gerði hann garðinn frægan, fyrst sem leikmaður og svo sem þjálfari,“ segir Nyegaard og bætir við. „Hann hefur yfir mikilli reynslu að skipa, bæði frá félags- og landsliðum og hefur sýnt það og sannað að hann getur þróað lið.“
Aron er sem stendur landsliðsþjálfari Barein.

Þá nefnir Nyegaard til sögunnar fyrrum íslenska landsliðsmanninn Arnór Atlason en í janúar fyrr á þessu ári sagði hann starfi sínu, sem þjálfari danska 21-árs landsliðsins lausu og á að taka við þjálfarastöðu hjá Holstebro í sumar. Þá hefur hann áður verið aðstoðarþjálfari danska stórliðsins Álaborg.
„Arnór myndi passa fullkomlega inn í hugmyndafræði GOG. Á þessari stundu er hann að færa sig á milli starfa og hvort GOG geti keypt hann lausan frá Holstebro veit ég ekki.“

Það er þó mat Nyegaard að Svisslendingurinn Andy Schmid sé besti erlendi þjálfarinn í starfið. Schmid er ennþá að spila og á að taka við svissneska landsliðinu frá árinu 2024.
