Heimildin greindi frá andláti Þóru. Í umfjöllun þeirra er vitnað í vini Þóru sem kveðja hana á Facebook, þar á meðal kvikmyndagerðarmanninn Jóhann Sigmarsson. „Það var alltaf mjög góður vinskapur á milli okkar,“ segir Jóhann.
„Hún var náttúrutalent af Guðs náð, svo skemmtileg sem manneskja og hjartahlý var. Ég á ótrúlega góðar minningar og fallegar um hana. Aðstandendum hennar votta ég mína dýpstu samúð. Farvel fuglinn minn.“
Kvikmyndin Blossi vakti töluverða athygli á sínum tíma. Í viðtali sem DV tók við Þóru skömmu áður en kvikmyndin var frumsýnd. Þar sagði Þóra að hún hafi fengið hlutverkið eftir að handritshöfundur Blossa, Lars Emil, rakst á hana í sjoppu.

Þóra var fengin til að leika Stellu, annað aðalhlutverka myndarinnar. Páll Banine lék Róbert Marshall, eða Robba, kærasta Stellu. Þóra sagði á sínum tíma að í myndinni væru þau Stella og Robbi villt par en á sama tíma mátulega hallærislegt. Í myndinni væri fyrst og fremst verið að lýsa Íslandi unga fólksins í „nútíð sem framtíð, á raunsæjan en jafnframt draumkenndan hátt.“
Mikill dýravinur
Þóra sagði í viðtali við Morgunblaðið á svipuðum tíma að leiklistin væri ekki eina áhugamálið hennar, hún hefði einnig áhuga á tónlist og trúmálum.
Einnig sagðist Þóra vera mikill dýravinur. Til að mynda hafi hún verið í leynilegum dýraverndunarsamtökum ungs fólks. Hún var algjörlega á móti tilraunum á dýrum, sagði þær vera andstyggilegar.
„Það er svo mikið um að fólk beri ekki virðingu fyrir dýrum,“ sagði hún í viðtalinu. „Dýr eru lifandi verur af holdi og blóði, eins og við.“