Ingibjörg og stöllur hennar í Vålerenga voru taplausar fyrir leikinn í dag eftir tíu umferðir. Þær mættu liði Stabæk sem var um miðja deild og var Ingibjörg í byrjunarliðinu í vörn Vålerenga.
Hún lét heldur betur að sér kveða í dag. Hún kom Vålerenga í 1-0 með marki á 26. mínútu en þetta er fyrsta mark hennar á tímabilinu.
Staðan í hálfleik var 1-0 en strax í upphafi síðari hálfleiks skoraði Ylinn Tennebo annað mark Vålerenga. Fleiri urðu mörkin ekki í dag, lokatölur 2-0 og Vålerenga því enn með sex stiga forskot á Selmu Sól Magnúsdóttir og liðsfélaga hennar í Rosenborg.