Bræðurnir mættust á laugardag í fyrsta leik einvígisins en Sigtryggur Daði er leikmaður ÍBV á meðan að Andri Már spilar með Haukum sem urðu að sætta sig við tap í Eyjum, 33-27.
Á meðal áhorfenda á leiknum voru Heiða Erlingsdóttir, móðir bræðranna og fyrrverandi landsliðskona í handbolta, og Eva Ingibjörg systir þeirra. Faðirinn, Rúnar Sigtryggsson, stýrir Leipzig í þýsku 1. deildinni eftir að hafa verið fenginn þangað frá Haukum í nóvember.
Klæðnaður mæðgnanna vakti athygli en þær voru í tvískiptum treyjum, það er að segja hálfri Haukatreyju og hálfri ÍBV-treyju. Á Twitter þakkar Andri íþróttafréttakonunni Svövu Kristínu Gretarsdóttur fyrir treyjurnar sem hafði veg og vanda af því að útvega treyjurnar.
Takk fyrir treyjurnar @SvavaGretars pic.twitter.com/1z4wxTlGuS
— Andri Már Rúnarsson (@andrimarrunars) May 21, 2023
Þó að Sigtryggur hafi fagnað sigri í leiknum á laugardaginn þá var yngri bróðir hans í umtalsvert stærra hlutverki í leiknum. Sigtryggur lét nægja að skora eitt mark úr tveimur skotum en Andri var annar af markahæstu mönnum Hauka með átta mörk úr 14 skotum.
Liðin mætast næst á Ásvöllum á morgun klukkan 18 og svo í Eyjum á föstudaginn en vinna þarf þrjá leiki til að landa Íslandsmeistaratitlinum. Komi til fjórða leiks verður hann næsta mánudag og mögulegur oddaleikur er dagsettur miðvikudaginn 31. maí.

Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 4.990 krónur á mánuði.