Erlingur Birgir Richardsson gerði ÍBV að Íslandsmeisturum á sínu síðasta ári með liðið en aðstoðarmaður hans, Magnús Stefánsson, mun taka við liðinu í sumar.
Erlingur og Magnús mættu í Seinni bylgju settið eftir sigurinn og fyrsta Íslandsmeistaratitil ÍBV í fimm ár.
„Þetta var mikill léttir og það er það sem stendur upp úr núna að maður er feginn að þetta skuli vera búið,“ sagði Erlingur Birgir Richardsson.

En hvernig var fyrir Magnús að vinna með Erlingi þetta tímabilið vitandi það að hann væri sjálfur að fara að taka við Eyjaliðinu?
„Það er búið að vera frábært. Þetta er þvílíkur viskubrunnur og ég hef reynt að plokka eins mikið frá honum og hægt er. Ég veit alveg hvar hann á heima þannig að hann kemst ekkert langt í burtu þegar manni vantar góð ráð,“ sagði Magnús Stefánsson.
ÍBV komst í 2-0 í einvíginu en missti það síðan niður í oddaleik.
„Auðvitað hefur maður áhyggjur þegar maður tapar leikjum. Við vorum að vinna okkur í stöður í leikjunum sem við töpuðum og þess vegna var líka svolítið erfitt að átta sig á því hvað var að klikka,“ sagði Erlingur.
„Vissulega fer um mann en þess á heldur þá þurfum við þjálfararnir að bregðast við. Magnús er búinn að vinna mikla vinnu í úrslitakeppninni og það hefur hjálpað gífurlega mikið,“ sagði Erlingur.
Erlingur og Magnús ræddu málin og Erlingur sagði meðal annars frá því að hann fór í golf á leikdegi.
Það má finna allt spjallið þeirra hér fyrir neðan.