Þrátt fyrir að hafa gert Napoli að ítölskum meisturum í fyrsta sinn í 33 ár er Spalletti á förum frá félaginu. Hann ætlar að taka sér frí frá þjálfun um tíma.
Spalletti fékk heldur óvenjulega kveðjugjöf frá stuðningsmönnum Napoli en þeir skiluðu honum stýri og geisladiskum sem þeir stálu úr Fiat Panda bíl hans þegar hann tók við liðinu fyrir tveimur árum. Þeir mótmæltu þá ráðningu hans.
Stuðningsmennirnir lofuðu að láta Spalletti hafa stýrið aftur þegar hann myndi hætta með Napoli og þeir stóðu við loforðið. Þeir pökkuðu stýrinu og geisladiskunum inn fyrir Spalletti, að sjálfsögðu í ljósbláan pappír.
Spalletti var svo hinn kátasti þegar hann var búinn að opna pakkann eins og sjá má á myndbandinu hér fyrir neðan.
Sorpresa esilarante per Luciano #Spalletti a Castel Volturno. Alcuni ultras del #Napoli portano un pacco regalo all'allenatore dello #Scudetto: all'interno c'è il volante della Panda e i cd di Pino Daniele rubati nel 2021 pic.twitter.com/rVCwqez9OZ
— Salvatore Amoroso (@salv_amoroso) June 6, 2023
Napoli hafði mikla yfirburði í ítölsku úrvalsdeildinni í vetur og tryggði sér titilinn í byrjun maí. Napoli fékk alls níutíu stig í ítölsku deildinni, sextán stigum meira en silfurlið Lazio. Napoli komst einnig í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.
Stuðningsmenn Napoli voru langt frá því að vera ánægðir með ráðninguna á Spalletti á sínum tíma en nú er allt annað hljóð í þeim enda leiddi hann liðið til langþráðs meistaratitils.