Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í morgun og vitnað í svör frá Ríkiskaupum.
Ríkiskaup eru sögð hafa lagt áherslu á að undantekningum á útboðsskyldu skuli ekki beitt nema „á grundvelli lagaheimilda og að vel ígrunduðu máli“.
Greint hefur verið frá því að fyrir leiðtogafundinn keypti lögregla vopn og annan búnað fyrir meira en 300 milljónir króna. Endanlegur kostnaður liggur hins vegar ekki fyrir og þá hafa ekki fengist svör við því hversu mörg vopn voru keypt.
Morgunblaðið greinir frá því að kaupin á búnaði hafi ekki farið í gegnum útboð á vegum Ríkiskaupa heldur ákvað Ríkislögreglustjóri að fara í bein samningskaup. Ef marka má tilkynningu á vef lögreglunnar um kaupin, má ætla að það hafi ráðið nokkru að skammur tími var til stefnu.