Í fréttatilkynningu um áfangann segir að 5G-tæknin bjóði upp á tækifæri á að ná enn meiri hraða og stöðugleika í nettengingum, bæði heima fyrir og hjá fyrirtækjum.
„Starfsmenn Vodafone hafa verið í vinnu síðasta árið um land allt við virkjun á 5G sendum. Einnig hefur Vodafone unnið að eflingu á 4G sendastöðvum ásamt uppfærslu á öðrum sendum. 5G er nýjasta og hraðasta kynslóð farsímanetsins og eykur hraða á netinu til muna. Uppbyggingin stórbætir því tengingar fyrir landsmenn og ferðamenn. Vodafone mun setja upp 100 5G senda til viðbótar á næstu 18 mánuðum um allt land," er haft eftir Sigurbirni Eiríkssyni, forstöðumanni innviða hjá Sýn, í tilkynningu.
Hagsmunamál fyrir sumarbústaðaeigendur
Í tilkynningu er haft eftir Sesselíu Bigisdóttur, framkvæmdastjóra hjá Vodafone, að starfsmenn fyrirtækisins séu ánægðir með þann árangur sem hefur náðst í uppbyggingu 5G-kerfisins og að kerfið sé allt að tíu sinnum hraðara en 4G netið og bjóði upp á möguleika að deila miklu magni af gögnum í rauntíma.
„5G tæknin veitir til dæmis fyrirtækjum möguleika á að nýta hlutanetstækni til rakningar og mælinga í rauntíma og hámarka skilvirkni. Hún tryggir jafnframt sumarbústaðareigendum sítengingu á dreifbýli og einstaklingum að streyma miklu magni gagna á miklum hraða. Uppbygging 5G tenginga um allt land er liður í framúrskarandi þjónustuvegferð Vodafone og fögnum við þeim árangri að hafa virkjað 100 senda á svona stuttum tíma," er haft eftir henni.
Vísir er í eigu Sýnar.