Djokovic, sem er 36 ára gamall, vann Opna franska mótið á sunnudag þar sem hann hafði betur gegn Norðmanninum Casper Ruud í úrslitaleik.
Þar með hefur hann unnið 23 risamót, einn karla, og er jafnframt sá eini sem unnið hefur risamótin fjögur að minnsta kosti þrisvar sinnum hvert. Hann sló metið sem hann deildi með Spánverjanum Rafael Nadal.
HISTORY #RolandGarros pic.twitter.com/5d4r8keSE6
— Roland-Garros (@rolandgarros) June 11, 2023
Djokovic hefur nú unnið jafnmörg risamót og Serena Williams og er einum titli frá því að jafna met Margaret Court, sem hann gæti náð að gera á Wimbledon-mótinu í næsta mánuði.
„Ég vil ekki taka þátt í þessum umræðum. Ég er að skrifa mína eigin sögu,“ sagði Djokovic eftir sigurinn í gær, þegar hann var spurður út í það hvort að hann væri orðinn sá besti í sögunni.
„Ég vil ekki segja að ég sé sá besti. Ég eftirlæt öðrum þær umræður,“ sagði Djokovic.
Í fyrsta sinn í tvo áratugi
Djokovic hefur helst glímt við þá Rafael Nadal og Roger Federer í gegnum árin en Federer lagði spaðann á hilluna í fyrra, eftir að hafa unnið tuttugu risatitla.
Nadal er svo kominn niður fyrir 100. sæti á heimslistanum, í fyrsta sinn síðan árið 2003 þegar hann var aðeins 16 ára gamall. Nadal hefur glímt við langvinn meiðsli sem komu í veg fyrir að þessi 37 ára Spánverji gæti varið titilinn sinn á Opna franska mótinu í ár. Nadal er nú númer 136 á heimslistanum.