„Við erum gríðarlega glöð með þennan hressa og heilalímandi sumarbænger og spennt fyrir viðbrögðunum og vonum auðvitað að lagið fái álíka viðtökur og fyrri smellir okkar,“ er haft eftir Rakel Guðmundsdóttur, markaðsstjóra Atlantsolíu.
Þar kemur fram að lagið beri heitið Hlaupa hlaupa og er það eins og fyrri lög Atlantsolíu samið af Helga Sæmundi Guðmundssyni, úr hljómsveitinni Úlfur Úlfur, og sungið af Siggu Beinteins og Sögu Garðarsdóttur, sem hingað til hefur ljáð auglýsingum bensínstöðvarinnar rödd sína.
Atlantsolía hefur áður gefið út hljómdiskinn Reif í dælunni þar sem finna mátti lög úr í auglýsingaherferð bensínstöðvarinnar. Eyrnaormurinn Bensínlaus sem flestöll börn landsins fengu á heilann vakti þar líklega mesta athygli. Platan fékk yfir 100 þúsund hlustanir á Spotify og Bensínlaus 60 þúsund hlustanir.
„Að fá Siggu Beinteins til liðs við okkur er ekkert minna en stórkostlegt. Hún er náttúrulega einstök – aðalkellingin - eins og hún segir sjálf í laginu,“ segir Rakel.
„Það má alveg búast við því að nýja lagið muni festast í höfðum landsmanna. Sigga og Saga er auðvitað dúett sem getur ekki klikkað.“