„Stemningin hjá okkur í FH-liðinu er virkilega góð og leikur kvöldsins leggst mjög vel í okkur,“ segir Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir, fyrirliði FH í samtali við Vísi í dag. „Við erum búnar að fara vel yfir leikplanið og það hvernig við munum nálgast leikinn. Við mætum því vel fókuseraðar og tilbúnar í kvöld.“
FH hefur verið á blússandi siglingu í Bestu deild kvenna undanfarið, liðið er á fjögurra leikja sigurgöngu og getur með fimmta sigrinum í kvöld lyft sér upp í þriðja sæti deildarinnar. Hvað þarf liðið að gera til þess að svo fari?
„Fyrst og fremst þurfum við bara að vera ofan á í baráttu og vilja líkt og við höfum sýnt í síðustu leikjum og fylgja leikplaninu. Ef það gengur vel þá munum við ná inn öðrum sigri.“
FH er eitt af spútnikliðum tímabilsins til þessa. Liðið er nýliði í Bestu deildinni og var í flestum spám spáð fallsæti, spá sem virðist ekki ætla að raungerast núna.
Hefur FH liðið verið að nýta sér þessar spár til þess að mótivera sig?
„Við vorum svo sem ekkert mikið að pæla í þessum spám. Við erum að koma inn sem nýliðar og því kom það okkur ekkert á óvart að vera spáð fallsæti en frammistaða okkar á tímabilinu hingað til hefur ekkert komið okkur á óvart.
Við búum yfir virkilega sterkum og breiðum leikmannahóp sem og sterkri liðsheild og vitum vel hvað í okkur býr.“
Andstæðingur kvöldsins, Þróttur Reykjavík, hefur verið í smá brekku undanfarið. Liðið er án sigurs í síðustu tveimur leikjum sínum í deildinni og féll á dögunum úr leik í Mjólkurbikarnum með tapi gegn Breiðabliki.
Við hvernig Þróttara liði býst þú í kvöld?
„Þær eru með virkilega flott lið og eru vel spilandi. Þá eru einstaklingsgæði þarna sem geta valdið miklum usla. Við þurfum bara að mæta vel tilbúnar til leiks og pressa vel á þær. Við megum ekki gefa þeim mikinn tíma á boltanum.“