Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá HB Heiði ehf., nýjum eiganda Heiðar. Félagið tók við jörðinni sumarið 2022 og í tilkynningu segir að síðan þá hafi verið unnið að friðlýsingu svæðisins í samráði við Umhverfisstofnun og sú vinna sé yfirstandandi.
Samhliða lagfæringu bílastæða, göngustíga og salernisaðstöðu standi einnig yfir vinna við þróun svæðisins í heild, með tilliti til uppbyggingar innviða og þjónustu fyrir gesti ásamt gerð friðlýsingarskilmála og stjórnunar- og verndaráætlunar í samráði við Umhverfisstofnun.
Vinna við breytingar á deiliskipulagi standi yfir í samráði við sveitastjórn og fyrirhugað sé að klára uppbyggingu á nýjum bílastæðum á árinu ásamt því að hefja undirbúning að framkvæmdum við þjónustumiðstöð, sem áætlað sé að opna næsta vor. Þar verði boðið upp á veitingar auk þess sem hægt verði að nálgast upplýsingar um svæðið.
„Samhliða þessari vinnu hefur verið hafin gjaldtaka á bílastæðum á svæðinu og hefur verið samið við fyrirtækið Parka Lausnir sem mun sjá um rekstur greiðslulausnar þar sem boðið verður uppá greiðslu í snjallforriti Parka, á vefsíðu eða í greiðsluvél á staðnum. Gjaldskrá er sambærileg og á öðrum sambærilegum ferðamannastöðum sem Parka sér um rekstur á,“ segir í lok tilkynningar.