Sport

Ga­rima og Sofia Sól­ey mætast í úr­slita­leiknum á Ís­lands­mótinu í tennis

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sofia Sóley og Garima Kalugade mætast í úrslitaleik meistaraflokks kvenna á morgun.
Sofia Sóley og Garima Kalugade mætast í úrslitaleik meistaraflokks kvenna á morgun. Tennissamband Íslands

Þær Garima Nitinkumar Kalugade og Sofia Sóley Jónasdóttir munu keppa til úrslita í meistaraflokk kvenna á Íslandmótinu í tennis á morgun. Sýnt verður beint frá úrslitaleikjum mótsins á Stöð 2 Sport.

Tennishátíð Tennissambands Íslands fer fram á morgun á Víkingsvellinum og hefst dagskráin klukkan tvö með úrslitaleik þeirra Garima og Sofiu Sóleyjar og svo úrslitaleik karla í kjölfarið.

Í undanúrslitaleik sínum vann Sofia Sóley sigur Önnu Soffíu Grönholm í þremur settum, 6-2, 5-7 og 7-5 en Garima vann öruggan sigur á Eygló Dís Ármannsdóttur 6-0 og 6-1.

Þetta verður í annað sinn sem þær keppa til úrslita í ár en þær mættust einnig í úrslitaleik Íslandsmótsins innanhúss í apríl þar sem Garima vann í þremur settum. Anna Soffía og Eygló Dís mætast í leik um bronsverðlaun klukkan 13:30 í dag.

Það kemur einnig í ljós í dag hver verður mótherji Rafn Kumar Bonifacius í úrslitaleik karla þegar þeir Freyr Pálsson og Raj Bonifacius mætast í undanúrslitaleik.

Íslandsmótið í tennis verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport sunnudaginn 2. júlí. Útsending frá úrslitaleik kvenna hefst klukkan 13:50 og frá úrslitaleik karla klukkan 15:30. Andri Már Eggertsson verður á staðnum og tekur viðtöl við keppendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×