Fótbolti

„Þetta verður mitt síðasta heimsmeistaramót“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þetta er síðasta tækifærið til að sjá Mörtu á HM kvenna í fótbolta.
Þetta er síðasta tækifærið til að sjá Mörtu á HM kvenna í fótbolta. Getty/Zhizhao Wu

Brasilíska goðsögnin og markahæsta kona HM frá upphafi hefur staðfest að komandi heimsmeistaramót í Ástralíu og Nýja-Sjálandi verði hennar síðasta.

Marta er að fara að taka þátt í sínu sjötta heimsmeistaramóti en hefur enn ekki náð því að verða heimsmeistari.

Marta er nú 37 ára gömul og er markahæsta landsliðskona Brasilíu frá upphafi með 117 mörk. Hún hefur þrisvar orðið Suður-Ameríkumeistari en mest náð silfurverðlaunum á HM. Brasilía tapaði úrslitaleiknum á HM 2007.

Sautján af landsliðsmörkum Mörtu hafa komið í úrslitakeppni HM sem er met. Hún hefur skorað þremur mörkum meira en þær Birgit Prinz og Abby Wambach sem eru báðar hættar. Marta gæti því aukið forskotið sitt á þessu heimsmeistaramóti.

„Já, þetta verður mitt síðasta heimsmeistaramót,“ sagði Marta við brasilíska fjölmiðla í gær. ESPN segir frá.

„Við verðum að gera okkur grein fyrir því að það kemur að þeim tíma þegar aðrir hlutir fara í forgang hjá þér,“ sagði Marta.

„Ég verð að vera mjög þakklát fyrir að hafa upplifað öll þessi ár með landsliðinu. Við fáum nú tækifæri til að fara á annað heimsmeistaramót en það er svolítið fjarstæðukennt að vera mæta á sitt sjötta heimsmeistaramót,“ sagði Marta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×