U19-ára landslið Íslands í knattspyrnu er eitt átta liða sem tekur þátt í úrslitakeppni Evrópumótsins á Möltu. Liðið tapaði fyrsta leik sínum á mótinu gegn Spáni í dag.
Hlynur Freyr Karlsson fyrirliði liðsins sagði að tilfinningin hefði verið góð þegar leikurinn fór af stað.
„Það var frábært. Við erum búnir að leggja mikið á okkur til að komast hingað og loksins komist að því. Þetta var bara geggjað,“ sagði Hlynur í samtali við Huldu Margréti, fulltrúa Vísis á Möltu.
Íslenska liðið sýndi fína frammistöðu í dag en Hlynur sagði svekkjandi að fá á sig mark úr föstu leikatriði en fyrsta mark Spánar kom eftir hornspyrnu.
„Mér fannst við ekki fá mörg færi á okkur. Við fengum mark á okkur í föstu leikatriði sem við ætluðum ekki að fá á okkur. Við vorum bara drulluþéttir og flottir held ég.“
Hlynur metur möguleika Íslands í riðlinum sem góða en liðið mætir næst Noregi á föstudag.
„Við erum með eitt mark í mínus og þurfum bara að vinna hina tvo leikina, það er bara planið. Við þurfum bara að vinna næsta leik. Við þurfum að verjast betur í föstum leikatriðum. Við gáfum aðeins of mörg færi á okkur. Ég held að Noregsleikurinn verði aðeins öðruvísi, ég held að við verðum ekki eins neðarlega og í þessum leik.“