Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég vakna yfirleitt með eiginmanninum um klukkan hálf sjö en kúri til rúmlega sjö.Ég er B týpa í grunninn og væri alveg til í að sofa lengur alla morgna.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Við hjónin erum nýflutt í vesturbæinn, þar sem rokið á lögheimili og beint fyrir ofan rúmið okkar eru þakgluggar, það er dásamlegt að vakna og horfa beint upp í himininn.
Síðustu vikur hef ég tekið 10-15 mínútna hugleiðslu með hjálp Balance appsins sem góð samstarfskona kynnti fyrir mér. þá tekur við góð sturta og nokkrar góðar teygjur og sveigjur til að vekja líkamann.
Að þessu loknu er það vatnsglas með eplaediki og loks fyrsti og nú síðustu mánuði, yfirleitt eini kaffibolli dagsins, hann er að ítölskum hætti, rótsterkur,soðinn í Bialetti mokkakönnu , svartur og sykurlaus.“
Hversu góð ertu í grillinu á sumrin?
Ég er skrambi góð að grilla enda elska ég að elda og borða góðan mat með góðu fólki.
Á grillinu er ég líklega þekktust meðal fjölskyldu og vina fyrir grilluðu humarpítsuna sem varð fyrst til á litlu útilegugrilli á tjaldstæðinu á Stykkishólmi fyrir mörgum árum.
Síðan þá hefur hún verið grilluð mjög víða fyrir mjög marga, alltaf gerð frá grunni og skreytt með lifandi ætum blómum. Meðal annars í Þórsmörk, Víðum í Reykjafirði, í fjöruborði á ströndum, Hallormstað og á pallinum í bústaðnum okkar. Hún er allra best þar sem aðstæður eru frumstæðar og náttúran fallegust.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Þessa dagana er það þróun á skýrslutóli sem er aðaláherslan í mínum störfum. Starf fjármálastjóra Hörpu er annasamt, fjölbreytt og skemmtilegt starf enda Harpa ákaflega lifandi menningar og ráðstefnuhús. Hér er opið er 364 daga á ári og yfir milljón gestir heimsækja Hörpu árlega. Umfang rekstursins í Hörpu er mikið, árlega eru þar 1300 fjölbreyttir viðburðir, allt frá dagskrá fyrir þau allra yngstu til þeirra allra elstu og allt þar á milli. Ég er svo heppin að starfa með mjög góðu og hæfileikaríku fólki á öllum póstum og engin dagur er eins, fjölbreytt, lifandi og skemmtileg verkefni alla daga.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
Ég er markmiðadrifin og vinn best þegar sýnin er skýr. Allir fundir og stærri verkefnaskil fara í dagbókina mína, síðustu ár hef ég unnið með To-Do lista fyrir hverja viku.
Mér hættir til að ætla mér of mikið og skil ekkert af hverju þessar 24 klukkustundir sem við fáum úthlutaðar á sólarhring reynast stundum allt of fáar klukkustundir til að komast yfir allt sem mig langar að komast yfir.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Þessi er erfið, eins og ég sagði er ég B kona í grunninn og um það leiti sem ég ætti að fara í rúmið þá á ég það til að fara að bardúsa í eldhúsinu, búa til pestó, múslí eða sultu og fara því allt of seint að sofa. Oftast er ég þó komin í rúmið um miðnætti.“