Jostein Sivertsen, rekstrarstjóri Kolstad, greindi frá því á blaðamannafundi í dag að sjö leikmenn liðsins hefðu samþykkt að laun þeirra yrðu lækkuð um þrjátíu prósent næsta árið.
Auk Sigvalda eru þetta norsku landsliðsmennirnir Sander Sagosen, Gøran Johannessen, Magnus Rød, Vetle Eck Aga, Torbjørn Bergerud og Magnus Gullerud. Christian Berge, þjálfair Kolstad, hefur einnig tekið á sig launalækkun.
Leikmönnunum sjö verður umbunað með því verðlaunafé sem Kolstad vinnur sér inn á næsta tímabili og ef félagið verður rekið með hagnaði sem nemur meira en einni milljón norskra króna.
Sigvaldi gekk í raðir Kolstad frá Kielce í fyrra. Hann varð þrefaldur meistari með liðinu á síðasta tímabili.
Svili hans og félagi í íslenska landsliðinu, Janus Daði Smárason, gekk í raðir Magdeburg frá Kolstad í gær.
Kolstad varð þrefaldur meistari heima fyrir á síðasta tímabili og samdi við hálft norska landsliðið. Félagið var þó ekki jafn ríkt og það virtist vera og á í verulegum fjárhagsvandræðum.
Illa hefur gengið að afla tekna og utanaðkomandi aðstæður hafa haft áhrif á fjárhaginn. Meðal þeirra eru veiking norsku krónunnar, verðbólga og áhrif stríðsins í Úkraínu.