Í tilkynningu á vefsíðu the Eagles segir að hann hafi látist úr langvinnri lungnateppu, 77 ára að aldri.
Meisner var bassaleikari framúrstefnulegu kántrýrokkhljómsveitarinnar Poco áður en hann stofnaði the Eagles árið 1971 ásamt þeim Glenn Frey, Don Henley og Bernie Leadon. Hljómsveitin varð fljótt ein sú allra vinsælasta í heiminum.
Meisner var bassaleikari the Eagles þegar breiðskífurnar Eagles, Desperado, On The Border, One of These Nights og Hotel California voru gefnar út. Hann hætti síðan í bandinu árið 1977 og sagðist vera orðinn langþreyttur á átökum innan hljómsveitarinnar.
„Randy var óaðskiljanlegur hluti af the Eagles og mikilvægur hluti af árangri hljómsveitarinnar á fyrstu árunum. Raddsvið hans var ótrúlegt, eins og heyrist vel á einkennisballöðu hans, Take it to the limit,“ segir í tilkynningu frá hljómsveitinni.
Meisner söng bakraddir í fjölmörgum lögum sveitarinnar en Take it to the limit er eina lagið þar sem hann fékk að láta ljós sitt skína sem aðalsöngvari. Að margra mati er lagið það best sungna í katalóg the Eagles.
Í spilaranum hér að neðan má heyra lagið í lifandi flutningi á tónleikum árið 1976: