Sýningin heitir Fl(j)óðog er um konur af erlendum uppruna sem búa í Húnaþingi vestra og miðlar hún sögum 33 kvenna, sem búa í sveitarfélaginu. Sveitarstjórinn þekkir vel til sýningarinnar í íþróttamiðstöðinni.
„Þar er í gangi mjög skemmtileg ljósmyndasýning á ljósmyndum eftir Juanjo Ivaldi Zaldívar. Hann heimsótti ásamt Gretu Clough, sem er hérna eigandi Handbendis brúðuleikhúss og var sýningarstjórinn að þessar sýningu og hélt utan um verkefnið. Þau heimsóttu fjölda kvenna, sem eru af erlendu bergi brotnar hérna í sveitarfélaginu. Og það er svo skemmtilegt þegar maður skoðar hlutfall þessara kvenna af íbúum sveitarfélagsins þá eru þær ríflega tíu prósent, eða ríflega 120 konur. Og það er óskaplega gaman að fanga þeirra líf og þeirra sögu með þessum ljósmyndum,” segir Unnur Valborg Hilmarsdóttir.
Viðtöl voru líka tekin við allar konurnar og er hugmyndin að setja myndirnar og viðtölin saman í eina bók. Gestir, sem skoða ljósmyndasýninguna eru yfir sig hrifnir.
„Mér finnst hún bara glæsileg, þetta er bara mjög flott. Við erum með flott fólk hérna,” segir María Sigurðardóttir íbúi á Hvammstanga.

Konurnar á ljósmyndunum koma víða að úr heiminum.
„Já, þær eru bara út um allt, þær koma frá öllum hornum heimsins. Og við vorum auðvitað svo heppin fyrir nokkrum árum að fá til okkar nokkrar fjölskyldur frá Sýrlandi og þær eru auðvitað áberandi í samfélaginu. Svo eru hérna fjölmargar konur frá Þýskalandi, nokkrar frá Svíþjóð, það eru hér konur frá Grikklandi, Póllandi og svo mætti áfram halda,” segir Unnur Valborg, sveitarstjóri.
