Þetta staðfesti Robert Macedonio, lögmaður Ásu, í viðtali við bandarísku fréttastofuna CNN.
„Þetta hafa verið mjög stutt samtöl. Allt er tekið upp. Hún má ekkert ræða um efni ákærunnar og lögmenn hans vilja það ekki heldur,“ sagði Macedonio.
Ása sjálf hefur ekki verið ákærð og er ekki talin hafa átt neinn þátt í morðunum sem kennd eru við Gilgo ströndina þar sem lík ellefu manneskja hafa fundist. Saksóknarar málsins telja að hún hafi verið utanbæjar í öll skiptin sem morðin voru framin.
Ása hefur þegar sótt um skilnað frá Heuermann og hefur undirritað pappíra þess efnis á sýslumannsskrifstofu í Long Island.
Gæti flækst í málaferli
Að sögn Macedonio snýst skilnaðurinn hins vegar ekki aðeins um brotið traust hjónanna heldur er hann gerður strax til að tryggja að Ása flækist ekki inn í málaferli. Það er væntanleg skaðabótamál sem fjölskyldur hinna myrtu gætu höfðað á hendur Heuermann.
„Við búumst við að það verði málaferli, fjárhagsleg mál sem hún gæti flækst inn í,“ sagði Macedonio. „Hún þarf að einblína á sjálfa sig og börnin sín til að komast í gegnum þetta. Réttarhöldin gætu tekið tvö eða þrjú ár og hún verður að halda áfram með líf sitt og barna sinna. Hvernig sem þetta fer þá mun hún taka á því á þeim tíma.“
Rúm milljón krónur safnast
Heimili Ásu og Rex í Massapequa Park hefur verið nær eyðilagt í leit lögreglunnar að sönnunargögnum. Ekki nóg með að húsgögn eins og rúm og sófar hafi verið tættir í sundur. Þá hafa gólffjalir og klæðningar á veggjum verið rifnar af.
Ása og fjölskylda hennar hafa fengið stuðning frá fjölskyldu raðmorðingjans Keith Jesperson, sem kallaður var broskalla morðinginn (Happy Face Killer). Melissa Moore, dóttir Jepserson, hóf hópfjármögnun fyrir Ásu og hafa þegar safnast meira en 8 þúsund Bandaríkjadalir, eða rúm ein milljón króna. Alls hafa 250 manns gefið til söfnunarinnar.
„Hún er ábyggilega ein af fáum sem hafa verið í sömu sporum og Ása, en faðir hennar var handtekinn og dæmdur fyrir að myrða að minnsta kosti átta konur,“ sagði Macedonio um Moore.