Eftir að hafa lent í 2. sæti Bestu deildarinnar á síðasta tímabili hefur gengið brösuglega í sumar og liðið er í 7. sæti þegar þetta er skrifað.
En KA-menn eru aftur á móti komnir í úrslit Mjólkurbikarsins og hafa unnið alla þrjá Evrópuleiki sína. Síðast sigraði KA Dundalk frá Írlandi, 3-1, í fyrri leik liðanna í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar.
„Ég fylgist með öllum leikjum og þetta hefur verið svolítil rússíbanareið. Maður hefði vonast eftir betra gengi í deildinni en aftur á móti er þetta frábært tímabil hvað það varðar að þeir eru í bikarúrslitum og eiga góða möguleika á að fara áfram í Evrópukeppni og mæta Club Brugge í næstu umferð,“ sagði Nökkvi í samtali við Vísi.
„Það er ekki hægt að segja að þetta sé slæmt tímabil þegar maður horfir á það. En maður hefði viljað vonast til að þeir væru meira með í toppbaráttunni í deildinni. Þeir eiga enn möguleika á að komast í topp sex og berjast um Evrópusæti. Það er mikið eftir af mótinu. Þeir áttu erfiðan kafla en það hefur verið stígandi í þessu að undanförnu.“
KA sækir Dundalk heim í kvöld og ef liðið forðast tveggja marka tap kemst það í 3. umferð Sambandsdeildarinnar þar sem það myndi að öllum líkindum mæta Club Brugge sem komst í sextán liða úrslit Meistaradeildar Evrópu á síðasta tímabili.
„Það er gott að vera 3-1 yfir og ef KA spilar sinn leik ættu þeir að klára þetta. Ég er mjög bjartsýnn,“ sagði Nökkvi.
Leikur Dundalk og KA hefst klukkan 18:45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.