Sigurinn kemur KÍ í 3. umferð, þar sem liðið mætir Noregsmeisturum Molde, en sigurinn hefur jafnframt í för með sér að sama hvernig fer þá mun færeyskt lið spila í riðlakeppni einhverrar af Evrópukeppnunum þremur.
Hálfur milljarður í kassann
Þannig hefur KÍ þegar tryggt sér að lágmarki 425 milljónir íslenskra króna endi liðið í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar, lægst skrifuðu Evrópukeppninnar (þar fást auk þess 72 milljónir fyrir hvern sigur og 24 milljónir fyrir jafntefli).
Ef KÍ tapar gegn Molde fer liðið nefnilega í umspil um sæti í Evrópudeildinni, og ef það einvígi tapast einnig þá fer KÍ beint í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Færeysku meistararnir munu því enda í einhverri af Evrópukeppnunum þremur og eiga fyrir höndum afar áhugaverða mánuði með leikjum fram að jólum.
Enn möguleikar fyrir tvö íslensk lið í ár
Ísland bíður þess enn að íslenskt lið komist inn í riðlakeppni einhverrar af Evrópukeppnunum og þarf enn að bíða eftir að Breiðablik tapaði gegn FC Kaupmannahöfn í gær.
Hins vegar er enn von um að íslenskt lið spili í Evrópukeppni í haust. Blikar fá annað tækifæri í einvígi sínu við Zrinjski Mostar frá Bosníu sem hefst í næstu viku, og ef það einvígi tapast fara Blikar í umspil um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.
Þá eru KA-menn 3-1 yfir í einvígi sínu við írska liðið Dundalk í 2. umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar, og geta tryggt sig áfram með góðri frammistöðu á Írlandi í kvöld, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 5.