Í 3. umferð forkeppninnar mætir KÍ Noregsmeisturum Molde, en sigurinn hefur jafnframt í för með sér að sama hvernig fer þá mun færeyskt lið spila í riðlakeppni einhverrar af Evrópukeppnunum þremur. Ef KÍ tapar gegn Molde fer liðið nefnilega í umspil um sæti í Evrópudeildinni, og ef það einvígi tapast einnig þá fer KÍ beint í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.
KÍ vann Häcken í vítaspyrnukeppni, 3-4, eftir 3-3 jafntefli í seinni leiknum í gær. Sænski markvörðurinn Jonathan Johansson var hetja KÍ en hann varði spyrnu Simons Sandberg.
Saga þessa 31 árs markvarðar er ansi merkileg. Hann var nefnilega hættur í fótbolta og samdi bara við KÍ fyrir rúmum mánuði.
Johansson lagði hanskana á hilluna fyrir tveimur árum og byrjaði að vinna sem rafvirki. Í frítíma sínum spilaði hann sem miðvörður í norsku E-deildinni.
En fyrir sex vikum hóaði KÍ í Johansson og nú er hann markvörður hjá liði sem spilar í Evrópukeppni í vetur.
„Það er erfitt að koma þessu í orð. Þetta er það stærsta sem hefur gerst í sögu félagsins og það stærsta sem hefur gerst fyrir mig,“ sagði Johansson. „Fyrir sex vikum spilaði ég ekki fótbolta.“
Sem fyrr er næsta verkefni Johanssons og félaga í KÍ í Meistaradeildinni gegn Molde sem varð norskur meistari á síðasta tímabili.