Andri Már Eggertsson var á svæðinu og tók púlsinn á keppendum og fleirum í nýjasta þætti Sumarmótanna sem sjá má í heild sinni hér að neðan.
Mikið líf og fjör var í Laugardalnum á meðan á mótinu stóð en þar kepptu krakkar í 3. og 4. flokki stelpna og stráka.
Andri ræddi við keppendur og þar á meðal bandarískt lið sem óvænt reyndist vera með Íslending innan sinna raða, sem og leikmenn malavísku akademíunnar Ascent sem slógu í gegn á mótinu.
Úrslitaleikir mótsins fóru fram á sjálfum Laugardalsvellinum þar sem reyndir dómarar sáu um dómgæsluna, og voru leikirnir í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Í 4. flokki kvenna vann Stjarnan sigur á Þór í úrslitaleik, í vítaspyrnukeppni eftir markalaust jafntefli. Stoke City vann Blackburn í úrslitaleik 4. flokks karla, 2-1, og strákarnir í Ascent unnu Þrótt 1-0 í úrslitaleik 3. flokks karla.
Í 3. flokki kvenna stóð svo Breiðablik uppi sem sigurvegari eftir æsispennandi úrslitaleik við þýska stórveldið Bayern München, þar sem úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni eftir að Lilja Þórdís Guðjónsdóttir jafnaði metin í 1-1 í lok venjulegs leiktíma.
„Ég bara hljóp og skoraði,“ sagði Lilja Þórdís glaðbeitt í viðtali eftir sigurinn, og kvaðst nú ekki hafa verið búin að ákveða að fara framhjá markverðinum til að skora eins og hún gerði svo listilega. „Nei, það gerðist bara þegar hún mætti,“ sagði Lilja Þórdís og uppskar mikinn hlátur hjá liðsfélögum sínum
Í vítaspyrnukeppninni reyndist Eva Steinsen Jónsdóttir hetja Blika þegar hún varði lokaspyrnu Bayern. „Þetta var ótrúlegt. Ég valdi bara horn og varði,“ sagði Eva áður en Blikastelpur tóku svo við verðlaunagrip sínum eftir afar vel heppnað mót.
Sumarmótin eru sýnd á Stöð 2 Sport og er Rey Cup sjötta mótið sem fjallað er um í þáttunum í sumar. Fyrri þætti má sjá hér að neðan.