Spænsku stúlkurnar mættu gríðarlega grimmar til leiks og settu tóninn strax á 5. mínútu er Aitana Bonmati kom þeim fyrir.
Laia Codina varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark sex mínútum síðar og staðan því orðin 1-1.
Það slys sló spænska liðið alls ekki út af laginu því það skoraði þrjú mörk í viðbót fyrir hlé. Alba Redondo skoraði fyrst og svo bætti Bonmati sínu öðru marki við. Laia Codina bætti svo fyrir sjálfsmarkið með því að skora í rétt mark á lokamínútu fyrri hálfleiks.
4-1 í hálfleik og Jenni Hermoso fullkomnaði frábæran leik spænska liðsins með eina marki síðari hálfleiks.
Spænska liðið því fyrst allra í átta liða úrslit mótsins.