Arnþór Hupfeldt býr við vatnið Mjösa þar sem flætt hefur yfir hafnarsvæðið og inn í bæinn síðustu daga. Rætt var við hann hér á Vísi þegar hann aðstoðaði vin sinn við að bjarga helstu verðmætum úr strandbar sem hann rekur í bænum.
Óveðrið Hans hefur valdið miklum usla í suðausturhluta Noregs. Um fjögur þúsund hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Rigning hefur gengið niður en vötn halda áfram að rísa.
„Vatnið er er komið í 7,13 metra og á eftir að stíga enn þá. Flæðið í það hefur minnkað en toppurinn er ekki fyrr en annað kvöld, það þýðir 50 sentimetra ofan á það sem fyrir er,“ segir Arnþór í samtali við fréttastofu.
Vandræðin hrannast upp
Hann segir að á næsta bæ, í Hamar, séu menn því áhyggjufullir meðal annars vegna mögulegs tjóns á 20 þúsund manna skautahöll.

„Þar hafa menn fyllt höllina með fersku vatni innan frá til að múrinn haldi við þrýstingi frá vatninu þegar það mætir höllinni. Það eru svona vandræði núna.“
Arnþór segir að ekki hafi reynt á nútíma mannvirki í flóði sambærilegu þessu.
„Nema 1995 en við erum að ná því flóði, og náum því sennilega á morgun. Þá kemur í ljós hvað gerist. Klóakstöðin í Hamar er að fara á kaf núna og þá fer allt klóak beint út í vatnið.“
„Rigningin kláraðist fyrir þremur dögum en vandræðin eru enn að hrannast upp. Þetta er komið upp fyrir hné á göngustígunum,“ segir Arnþór sem fór í sundbuxur og óð út í vatnið til að ná eftirfarandi myndum:





