Óvíst er, þegar að þetta er skrifað, hvert heimili efstu deildar karla og kvenna í handboltanum hér heima verður á næsta tímabili sem hefst eftir sléttar þrjár vikur.
Stöð 2 Sport hefur undanfarin tímabil gert deildinni skil með beinum útsendingum frá leikjum sem og sérstökum uppgjörsþáttum en samningar milli HSÍ og Stöðvar 2 fyrir komandi tímabil náðust ekki.

„Ég vona að HSÍ sé ekki að gera upp á bak en sambandið verður að svara fyrir það. Ég hef heyrt að þeir séu ekki búnir að semja við Stöð 2 Sport. Olís deildin var á frábæru skriði, með frábæra gæja og dömur innanborðs. Það væri því mikil synd ef að það mál er eitthvað að klúðrast. Þá þarf einhver að sparka í einhvern og fá það í gang.“
Ég heyri að þetta brennur aðeins á þér.
„Ég bara vil ekki að það sé verið að klúðra íslenskum handbolta í einhverju kæruleysi. Maður heyrir bara að menn séu í einhverju sumarfríi og ekkert að gerast.
Olís deildin var bara orðin svo góð og falleg vara sem hafði þróast í nokkur ár. Þetta má endilega komast til skila svo einhver komi sér úr golfferðinni sinni eða hvað það nú er og fari að gera eitthvað í málunum svo það verði hægt að horfa á íslenskan handbolta og það ekki bara í einhverju lélegu streymi.“