Úrslit verða tilkynnt þriðjudaginn 31. október 2023 í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Osló.
Verðlaunaféð nemur 300 þúsund dönskum krónum (5,8 milljónum íslenskra króna) og skiptist jafnt milli handritshöfundar, leikstjóra og framleiðanda.
Aðrar myndir sem tilnefndar eru til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2023 eru:
- Viften frá Danmörku. Leikstýrt af Frederikke Aspöck eftir handriti Anna Neye.
- Kupla frá Finnlandi. Leikstýrt af Aleksi Salmenperä eftir handriti Reeta Ruotsalainen og Aleksi Salmenperä.
- Alanngut Killinganni frá Grænlandi. Leikstjórn og handrit eftir Malik Kleist.
- Á ferð með mömmu í leikstjórn Hilmars Oddssonar sem skrifar einnig handrit. Framleiðandi er Hlín Jóhannesdóttir fyrir Ursus Parvus.
- Krigsseileren frá Noregi. Handrit og leikstjórn í höndum Gunnars Vikene.
- Motståndaren frá Svíþjóð. Handrit og leikstjórn í höndum Milad Alami.
Þetta er í fyrsta skiptið sem grænlensk mynd er tilnefnd til verðlaunanna sem hafa verið veitt nítján sinnum.
Þess ber að geta að Bíó Paradís í samvinnu við Nordisk Film og TV Fond mun sýna allar myndirnar sem eru tilnefndar dagana 25. – 30. október 2023 með enskum texta.

Á ferð með mömmu var heimsfrumsýnd á Tallinn Black Nights hátíðinni og vann aðalverðlaun hátíðarinnar.
Með aðalhlutverk fara Þröstur Leó Gunnarsson, Kristbjörg Kjeld, Hera Hilmarsdóttir og Tómas Lemarquis. Hlín Jóhannesdóttir framleiðir fyrir Ursus Parvus, meðframleiðandi er Marianne Ostra fyrir Alexandra Film í Eistlandi.
Fjórar íslenskar myndir hlotið verðlaunin
Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 2002 í tilefni fimmtíu ára afmælis Norðurlandaráðs. Þá hlaut finnska myndin The Man WithoutA Past eftir Aki Kaurismäki verðlaunin. Þau hafa síðan verið afhent árlega frá árinu 2005.
Á meðal verðlaunahafa síðastliðna áratugi eru Roy Andersson, Pernilla August, Lars von Trier, Thomas Vinterberg, Ruben Östlund og Joachim Trier.
Fjórar íslenskar kvikmyndir hafa hlotið verðlaunin, nú síðast Dýrið í leikstjórn Valdimars Jóhannssonar sem hlaut verðlaunin í fyrra. Hinar myndirnar eru Hross í Oss og Kona fer í Stríð í leikstjórn Benedikts Erlingssonar og Fúsi í leikstjórn Dags Kára.