Arnar hefur verið í leikbanni í síðustu tveimur leikjum Víkings en verið uppi í stúku og í sambandi við aðstoðarmenn sína á hliðarlínunni í gegnum síma. Hann viðurkenndi það í viðtali eftir leikinn gegn Val á sunnudaginn.
Nokkuð hefur verið rætt um það hvort Arnar megi stýra, eða fjarstýra, liði sínu þrátt fyrir að vera í banni. Og samkvæmt áreiðanlegum heimildum Vísis er lögmaður Vals með málið til skoðunar. Valsmenn eru að skoða upptökur og regluverk KSÍ og FIFA.
Víkingur vann leikinn gegn Val með fjórum mörkum gegn engu og náði þar með ellefu stiga forskot á toppi Bestu deildarinnar. Um leið settu Víkingar stigamet í tólf liða deild (53 stig).