Gylfi Sigurðsson hefur ekki leikið knattspyrnu síðan hann var sakaður um kynferðisbrot sumarið 2021. Málið var í rannsókn hjá lögreglunni í Bretlandi. Í apríl síðastliðnum lýsti lögreglan í Manchester því hins vegar yfir að sönnunargögn „næðu ekki þeim þröskuldi sem fellur að reglum saksóknara krúnunnar“, og var Gylfi þar með laus allra mála.
Í júlímánuði mætti Gylfi á æfingar hjá Val en lítið hefur frést um næstu skref hans og sjálfur hefur hann ekkert gefið út um hvort hann ætli að halda áfram að spila knattspyrnu.
Síðustu vikur hefur orðrómurinn um að Gylfi sé á leið til Lyngby orðið æ háværari. Freyr Alexandersson er þjálfari Lyngby og hann sagði í viðtali á dögunum að hann teldi helmingslíkur á því að Gylfi gengi til liðs við félagið.
„Ég myndi segja að líkurnar væru 50/50,“ sagði Freyr sem vildi ekki fara nánar út í viðræðurnar. „Ég get ekki farið í nein smáatriði en við höfum sett saman plan og ef það gengur upp er raunhæft að Gylfi Þór verði leikmaður Lyngby,“ sagði Freyr þá.
Ljóst er að það myndi vekja mikla athygli ef Gylfi gengi til liðs við Lyngby. Sævar Atli Magnússon, Kolbeinn Finnsson og Andri Lucas Guðjohnsen leika með félaginu.