Ríkismiðill Norður-Kóreu, KCNA, segir villu hafa komið upp við geimskotið og unnið sé að því að greiða úr vandanum. Síðast reyndu Kóreumenn að skjóta njósnagervihnetti á braut um jörðu í maí. Þá lenti eldflaugin í hafinu skömmu eftir flugtak.
Þá fór eitthvað úrskeiðis milli fyrsta og annars stigs eldflaugarinnar.
Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar hefur Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, lýst því yfir að hann vilji gervihnött til að fylgjast með Bandaríkjunum og Suður-Kóreu.
Ríkisstjórn Kim hefur lengi unnið að þróun eldflauga sem eiga meðal annars að geta borið kjarnorkuvopn til Bandaríkjanna. Þróun bæði eldflauganna og kjarnorkuvopnanna eru í trássi við samþykktir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
Herforingjaráð Suður-Kóreu tilkynnti í dag að eldflaugaskot hefði greinst frá Norður-Kóreu en ráðamenn þar höfðu látið Japani vita af því að þeir ætluðu sér að skjóta gervihnetti á loft í dag.
Undanfarin ár hefur spennan á Kóreuskaganum aukist jafnt og þétt og þykir hún mjög mikil. Kim hefur ekki viljað taka þátt í viðræðum um kjarnorkuvopn sín, þar sem hann telur þau tryggingu gegn því að honum verði komið frá völdum.