Greint var frá því í júní síðastliðnum að saksóknari í Berlín hefði opnað rannsókn á hendur Lindemann. Tugir kvenna stigu fram í sumar og sökuðu Lindemann og starfslið hans um kerfisbundna tælingu og byrlun.
Breski miðillinn Guardian hefur eftir embætti saksóknara að við rannsókn málsins hefðu engin sönnunargögn fundist. Þá hefði vitnisburður reynst ótrúverðugur auk þess sem meintir brotaþolar sem stigu fram á Reddit hafi ekki viljað vera vitni í málinu hjá embætti saksóknarans.
Í maí síðastliðnum steig Shelby Lynn, norður-írskur aðdáandi sveitarinnar, fyrst fram með ásakanir á hendur söngvaranum. Hún sagðist telja að söngvarinn hefði byrlað sér þegar hann bauð henni baksviðs, fyrir tónleika Rammstein í Vilníus, höfuðborg Litáen í maí. Tillman hefði auk þess brugðist reiður við því þegar hún hafi neitað að sofa hjá honum.
Í umfjöllun miðilsins er haft eftir saksóknara að ásakanir Shelby hafi þegar á hólminn er komið reynst óskýrar og að í ljós hafi komið að Shelby hafi sjálf ekki orðið vitni að neinu saknæmu.
Í kjölfar þess að Shelby steig fram lýstu tugir kvenna svipaðri sögu á Reddit síðu þungarokkshljómsveitarinnar. Virtust lýsingarnar margar vera keimlíkar, eða alveg eins, að því er fram kemur í umfjöllun Guardian.
Sjálfur hefur Till Lindemann staðfastlega neitað sök og sveitin gefið frá sér yfirlýsingu vegna málsins. Í yfirlýsingunni sagði að sveitin þætti öryggi aðdáenda sinna á tónleikum sveitarinnar vera það sem öllu máli skiptir. Ásökunum væri ekki tekið af léttúð.
Málið hefur vakið gríðarlega athygli og meðal annars verið rætt í þýska þinginu, þar sem þingmenn hafa lagt fram fyrirspurnir um hvar málið hafi verið statt hjá saksóknara, sem varðist öllum fréttum þar til nú. Þá hefur bókaútgefandinn KiWi slitið útgáfusamningi sínum við Lindemann vegna málsins, en forlagið hafði um áraraðir gefið út ljóðabækur hans.