Albert var ekki valinn í íslenska landsliðið í fótbolta sem mætir Lúxemborg og Bosníu í undankeppni EM 2024 í næsta mánuði.
Albert hefur verið kærður fyrir kynferðisbrot og samkvæmt reglum KSÍ er landsliðsþjálfara óheimilt að velja leikmann í landsliðið meðan rannsókn á máli hans stendur yfir.
Á blaðamannafundi KSÍ í dag, þar sem Hareide fór yfir valið á landsliðshópnum, sagðist hann hafa rætt við Albert.
„Ég heyrði í Alberti og útskýrði fyrir honum reglurnar. Hann veit að reglurnar eru svona og verður því ekki valinn á meðan að hans mál er til rannsóknar,“ sagði Hareide sem er svekktur yfir því að mál sem þetta hafi komið upp.
„Við getum ekki verið með augun á leikmönnum allan sólarhringinn. Ég er vonsvikinn að svona mál skuli koma upp. En þetta er ekki í mínum höndum. Ég er ráðinn inn sem þjálfari og einbeiti mér að þjálfuninni. Ég fylgi reglum sambandsins. Það er ekkert annað í boði. Albert veit þetta. Ég sagði honum frá stöðunni og hann skilur hana.“
Hareide sagðist hafa verið ánægður með Albert í síðustu landsleikjum. „Ég talaði við leikmennina í kvöldverðinum eftir leikinn á móti Portúgal og hrósaði þeim fyrir þeirra framlag. Albert var einn af þeim sem lagði mest á sig fyrir liðið í leikjunum.“
Þrátt fyrir að Albert hafi verið kærður fyrir kynferðisbrot spilar hann fyrir Genoa í ítölsku úrvalsdeildinni. Félagið hefur sagst styðja við bakið á honum.
Albert hefur leikið 35 landsleiki fyrir Ísland og skorað sex mörk. Hann hefur leikið með Genoa frá því í ársbyrjun 2022.