Fótbolti

Andri Lucas fiskaði víti þegar Lyng­by fór á­fram í bikarnum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Andri Lucas var í byrjunarliði Lyngby í dag.
Andri Lucas var í byrjunarliði Lyngby í dag. Facebooksíða Lyngby

Íslendingaliðið Lyngby er komið áfram í danska bikarnum í knattspyrnu eftir 2-0 sigur á Hilleröd á útivelli í dag.

Danska liðið Lyngby er svo sannarlega það sem kalla má Íslendingalið. Freyr Alexandersson er þjálfari liðsins og með félaginu leika þeir Andri Lucas Guðjohnsen, Sævar Atli Magnússon og Kolbeinn Finnsson.

Á dögunum bættist svo Gylfi Þór Sigurðsson í hópinn en vonir standa til að hann geti byrjað að spila með liðinu innan skamms. Það yrði þá í fyrsta sinn í rúm tvö ár sem Gylfi léki knattspyrnuleik.

Í dag mætti Lyngby liði Hilleröd á útivelli. Lyngby stillti upp liði sem var að mestu skipað leikmönnum sem fá tækifræi hafa fengið undanfarið en þó með undantekningum og var Andri Lucas Guðjohnsen eini Íslendingurinn í leikmannahópi liðsins í dag.

Andri Lucas byrjaði leikinn sem var markalaus í fyrri hálfleik og Hilleröd, sem er í neðri hluta næst efstu deildar, átti í fullu tré við úrvalsdeildarlið Lyngby.

Seinni hálfleikur var jafn framan af en þegar um stundarfjórðungur var eftir komst Lyngby yfir með marki frá Frederik Gytkjær. Skömmu fyrir leikslok bætti Gytkjær síðan við öðru marki úr vítaspyrnu sem dæmd var eftir að Andri Lucas var felldur. 

Góður 2-0 sigur lærisveina Freys staðreynd og Lyngby er komið áfram í bikarnum en um var að ræða aðra umferð keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×