Cavalcante slapp úr fangelsi þann 31. ágúst og umfangsmikil leitaraðgerð hefur staðið yfir síðan. Á blaðamannafundi í dag fóru lögregluyfirvöld í Chester-sýslu yfir gang mála og lýstu því hvernig hann slapp.
Í myndskeiði frá AP fréttaveitunni má sjá hvernig Cavalcante klifraði á milli tveggja veggja og upp á þak fangelsisins og brot úr blaðamannafundinum.
Eftir að hafa komið sér upp á þakið braust hann í gegnum þykkan gaddavír, hljóp yfir þakið, klifraði upp girðingu og loks í gegnum meiri gaddavír.
Frá því að Cavalcante slapp fyrir viku síðan hefur nokkrum sinnum sést til hans en ekki hefur tekist að hafa hendur í hári hans enn sem komið er. Lögregluyfirvöld beita öllum tiltækum ráðum við leitina, þar á meðal leitarhundum og þyrlum.