Dagur B. Eggertsson borgarstjóri vísar til hugmynda í minnisblaði starfshóps um haftengda upplifun og útivist við útisvæði Faxaflóahafna. Þar komu fram ýmsar hugmyndir að haftengdri upplifun og útivist við hafnarsvæðið.
„Sérstök ástæða er til að setja hugmynd um Parísar-hjól í farveg,“ segir Dagur. Það verði hugsað á viðskiptalegum grunni, án fjárútláta borgarinnar eða hafnarinnar. Jafnframt verði hugað að útfærslu almennings- og leiksvæða á Miðbakka samhliða uppsetningu slíks hjóls, reynist hugmyndin raunhæf.
„Ljóst er að umtalsvert flækjustig getur fylgt framkvæmdinni og útfærslu þess og ljóst að hafa þurfi viðtækt samráð um það og vinna nauðsynlega greiningu og vinnu sameiginlega af Reykjavíkurborg og Faxaflóahöfnum en Miðbakki er á hafnarsvæði,“ segir Dagur.
Lagði hann til að borgar- og atvinnuþróunarteymi á skrifstofu borgarstjóra verði falið að kanna raunhæfni hugmyndarinnar á fundi borgarráðs. Meirihluti samþykkti tillöguna.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykktu málið á þeirri forsendu að hvorki borgin né Faxaflóahafnir beri nokkurn kostnað af framkvæmd eða rekstri. Einungis verði um einkaframkvæmd að ræða. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins sagði Parísarhjól skemmtilega hugmynd en hefur áhyggjur af því því verði fundinn staður með landfyllingu.
Fyrr í dag var greint frá því að árshlutareikningur borgarinnar hefði verið neikvæður um 6,7 milljarða króna. Það er 12,8 milljarða króna lakari niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir. Þá samþykkti borgarráð í morgun að heimila fjármála- og áhættustýringarsviði, eignaskrifstofu, að hefja söluferli á Perlunni auk tveggja vatnstanka í Öskjuhlíð. Fasteignamat eignanna er tæpir fjórir milljarðar.