„Við undirrituð, sem vinnum í íslenska kvikmyndaiðnaðinum, viljum vekja athygli á þeim áhrifum sem áframhaldandi hvalveiðar munu hafa á okkar starf og ímynd landsins. Með það fyrir augum, biðjum við stjórnvöld á Íslandi að endurskoða ákvörðun sína um leyfi til hvalveiða,“ segir í tilkynningu fyrir hönd hópsins.
Á undirskriftalistunum má finna fjölda þekktra nafna í kvikmyndageiranum en um 500 manns hafa skrifað undir. Á listanum má meðal annars finna Ilmi Kristjánsdóttur, Högna Egilsson, Brynhildi Guðjónsdóttur og Baltasar Kormák.
Hvalveiðarnar hafa einnig vakið athygli í Hollywood en þekktir einstaklingar á borð við Leonardo DiCaprio og Jason Momoa hafa skrifað undir sambærilegan lista.
„Hvalveiðar hafa alvarleg áhrif á umhverfið, ímynd Íslands og þátttöku okkar í alþjóðlega kvikmyndaheiminum. Leikarar, leikstjórar, framleiðendur og kvikmyndagerðarfólk víða um heim, hafa nýlega lagt fram undirskriftalista, sem lýsir því yfir að Ísland verði sniðgengið ef hvalveiðar halda hér áfram og skaðar þannig orðspor Íslands í alþjóðlega kvikmyndaheiminum,“ segir enn fremur. Þúsundir hafi atvinnu við kvikmyndagerð allan ársins hring.
Kvikmyndagerðarfólk krefst þess að ráðherra og ríkisstjórnin endurskoði ákvörðun matvælaráðherra að leyfa hvalveiðar: „Við hvetjum ríkisstjórnina jafnframt til að ganga í takt við tímann og uppfæra sín gildi svo þau stuðli að áframhaldandi árangri landsins og atvinnu þúsunda Íslendinga.“
Hér að neðan má nálgast undirskriftalistana.