Sport

Ní­tján ára heima­kona fagnaði sigri á opna banda­ríska

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gauff með bikarinn. Hún vann sinn fyrsta risatitil í nótt.
Gauff með bikarinn. Hún vann sinn fyrsta risatitil í nótt. EPA

Draumur hinnar 19 ára Coco Gauff rættist í nótt þegar hún tryggði sér sigur á opna bandaríska mótinu í tennis. Gauff vann sigur á Aryna Sabalenka frá Belarús í þremur settum sem þrátt fyrir tapið lyftir sér upp í efsta sæti heimslistans.

Leikur þeirra Gauff og Sabalenka í gærkvöldi var mikil skemmtun. Fyrsta settið var eign Sabalenka sem spilaði frábæran tennis. Gauff virkaði stressuð í byrjun leiks og þegar Sabalenka fagnaði 6-2 sigri sínum í fyrsta settinu var fátt sem benti til þess að Gauff væri líkleg til endurkomu.

Smátt og smátt komst Gauff betur inn í leikinn, náði að skila fleiri skotum til baka til Sabalenka og gera henni erfitt fyrir. Áhorfendur á Arthur Ashe-vellinum í New York voru nær allir á bandi Gauff og þegar Sabalenka mistókt í tveimur uppgjöfum í röð um mitt annað settið fögnuðu áhorfendur gríðarlega.

Gauff nýtti sér meðbyrinn, vann 6-4 sigur í öðru setti og jafnaði leikinn.

Bandaríska ungstirnið vann síðan fyrstu fjóra leikina í þriðja setti og á þeim tíma gekk allt á afturfótunum hjá Sabalenka. Skot hennar enduðu annað hvort í netinu eða fyrir utan völlinn. Hún náði þó að minnka muninn í 4-2 en Gauff svaraði með stæl og tryggði sér sigurinn með frábæru skoti. Lokatölur í settinu 6-2 og allt varð vitlaust á áhorfendapöllunum enda í fyrsta sinn síðan 2017 sem heimakona fagnar sigri á mótinu.

„Þetta hefur svo mikla þýðingu fyrir mig. Mér líður eins og ég sé í einhvers konar áfalli,“ sagði Gauff þegar sigurinn var í höfn.

Goðsögnin Billie Jean King afhenti Gauff verðlaunin að leik loknum af því tilefni að verið var að fagna jöfnum launum karla og kvenna á mótinu síðustu 50 árin.

„Í dag sá ég pabba minn gráta í fyrsta sinn. Hann heldur að hann sé svo harður. Hann fór með mig á þetta mót þegar ég var lítil til að horfa á Serena og Venus (Williams) keppa og það er ótrúlegt að vera á þessu sviði.“

Þrátt fyrir tapið fer Sabalenka upp í efsta sæti heimslistans. Hún lék frábærlega á mótinu en átti engin svör við mögnuðum leik Gauff í nótt.

„Takk fyrir þið sem trúðuð ekki á mig. Ég reyndi að gera þetta af virðingu. Til ykkar sem hélduð að þið væruð að hella vatni á eldinn minn, þið voruð í raun að bæta á hann gasi og nú brenn ég svo skært,“ sagði Coco Gauff að endingu.

Tilfinningarnar voru eðlilega sterkar þegar úrslitin lágu fyrir.Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×