Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, var afhentur undirskriftalistinn í ráðuneyti hans klukkan tíu. Um 40 manns voru viðstaddir afhendinguna, en undirskriftirnar voru umtalsvert fleiri.
„Þetta voru 4.677 undirskriftir, frá einstaklingum alls staðar að á landinu, sem skoruðu á yfirvöld að falla frá áformum um sameininguna,“ segir Krista Sól Guðjónsdóttir forseti Hugins, skólafélags Menntaskólans á Akureyri.
Ráðherra hafi sagst ætla að taka málið til skoðunar.
„Og hann sé að koma norður. En ekkert merkilegt sem hann sagði, svo sem. Þetta endar sennilega neðst í skúffu einhvers staðar eða í ruslinu,“ segir Krista.
Krista býst ekki við að ráðherra falli frá áformunum á næstunni, þó hún voni að það verði lokaniðurstaðan.

„Þar sem það er fullt af fólki á móti þessu, bæði kennarar í MA, VMA, nemendur í MA, skólameistari MA, atvinnulífið á Akureyri og svo lengi mætti telja.“
Nemendur hafi fundið fyrir miklum meðbyr með sinni afstöðu.
„Það er eitthvað sem kemur upp á móti, eitthvað um menntahroka og menntasnobb, sem er auðvitað leiðinlegt. En við höfum fundið fyrir miklum stuðningi, og fólk sem er annt um skólakerfið á Íslandi er að taka til máls og styðja okkur, þar sem við erum bara fyrsta skrefið. Svo á að fara að umturna öllu framhaldsskólakerfinu.“
Næst á dagskrá sé að taka málið upp á aðalþingi Sambands íslenskra framhaldsskólanema sem fer fram um helgina.
„Annars liggur boltinn svolítið hjá Ásmundi ráðherra,“ segir Krista að lokum.