Stjarnan tók á móti Fram í leik sem fyrirfram var talið að yrði nokkuð jafn enda liðunum spáð 4. og 5. sæti deildarinnar í spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna fyrir tímabilið.
Sú varð hins vegar ekki raunin. Fram hafði mikla yfirburði í Garðabænum og vann að lokum 32-22 sigur eftir að hafa verið 16-11 í hálfleik.
Embla Steindórsdóttir úr Stjörnunni og Framkonan Lena Margrét Valdimarsdóttir voru markahæstar á vellinum með níu mörk og þá bætti Þórey Rósa Stefánsdóttir við átta mörkum fyrir Fram.
Í Breiðholtinu tóku nýliðar ÍR á móti liði KA/Þór. Heimakonur byrjuðu mun betur og komust í 5-0 í upphafi leiks. Þær héldu forystunni fram að háfleik en gestirnir að norðan luku fyrri hálfleik vel og aðeins munaði tveimur mörkum þegar fyrri hálfleik lauk, staðan þá 13-11.
KA/Þór tókst að jafna og komast yfir í upphafi síðari hálfleiks. Spennan var mikil en þegar um tíu mínútur voru eftir bitu heimakonur frá sér á ný og juku muninn í fjögur mörk. Það var of mikið fyrir gestina og ÍR vann að lokum 25-22 sigur.
Sara Dögg Hjaltadóttir var markahæst hjá ÍR með sjö mörk en Rakel Sara Elvarsdóttir og Nathalia Balina skoruðu sex fyrir KA/Þór.
Þetta er annar sigurleikur nýliða ÍR á tímabilinu en þremur umferðum er lokið í Olís-deildinni. Stjarnan og KA/Þór eru hins vegar stigalaus á botni deildarinnar. Fram er með fjögur stig í þriðja sæti.