Handbolti

Ellefu mörk Sigvalda dugðu ekki til

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði ellefu mörk fyrir Kolstad í kvöld.
Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði ellefu mörk fyrir Kolstad í kvöld. Sanjin Strukic/Pixsell/MB Media/Getty Images

Sigvaldi Björn Guðjónsson var markahæsti maður vallarins er Kolstad heimsótti RK Zagreb í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld. Þrátt fyrir það máttu Sigvaldi og félagar þola ellefu marka tap, 31-20.

Liðin skiptust á að skora í upphafi leiks og fyrst um sinn virtist ekkert geta skilið liðin að. Þegar um tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik var staðan jöfn, 10-10, en heimamenn skoruðu seinustu sjö mörk hálfleiksins og voru því 17-10 yfir þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Lítið sem ekkert gekk hjá Sigvalda og félögum að minnka muninn í síðari hálfleik og sigur heimamanna í RK Zagreb var því öruggur. Gestirnir í Kolstad minnkuðu muninn aldrei niður fyrir sjö mörk og niðurstaðan varð ellefu marka sigur Zagreb, 31-20.

Sigvaldi var sem áður segir markahæsti maður vallarins, en hann skoraði ellefui mörk fyrir Kolstad. Hann skoraði því yfir helming marka gestanna, en Kolstad er nú með tvö stig í sjöunda sæti A-riðils eftir þrjá leiki, jafn mörg og Zagreb sem situr í sjötta sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×