Fyrir leik Fídjí og Georgíu á HM í Frakklandi á laugardaginn fékk Tuisova þær sorgarfréttir að sonur hans, Tito, væri látinn, aðeins sjö ára að aldri, eftir erfið veikindi. Tuisova spilaði leikinn gegn Georgíu sem Fídjí vann, 17-12. Fídjíar lentu 9-0 undir í leiknum en komu til baka og unnu góðan sigur.
Jarðarför sonar Tuisovas fer fram í dag en hann verður ekki viðstaddur. Hann hélt nefnilega kyrru fyrir í Frakklandi og ætlar að halda áfram að spila á HM.
Fídjí er á barmi þess að komast í átta liða úrslit heimsmeistaramótsins þar sem liðið myndi væntanlega mæta Englandi.
Tuisova er lykilmaður í liði Fídjí og var meðal annars valinn maður leiksins í sigrinum á Ástralíu, 22-15. Hann spilar með frönsku félagsliði, Racing 92.