Það var Josip Brekalo sem kom gestunum í Fiorentina yfir strax á sjöundu mínútu er hann tók frákast eftir skot Lucas Martinez Quarta sem Alex Meret hafði varið í marki Napoli.
Victor Osimhen hélt svo að hann hefði jafnað metin á 23. mínútu, en mark hans dæmt af vegna rangstöðu eftir skoðun myndbandsdómara. Osimhen skoraði þó löglegt mark í uppbótartíma fyrri hálfleiks og staða því jöfn þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Giacomo Bonaventura kom gestunum þó yfir á nýjan leik með marki á 63. mínútu áður en varamaðurinn Nicolas Gonzalez gulltryggði 3-1 sigur Fiorentiona með marki í uppbótartíma.
Fiorentina situr nú í fjórða sæti deildarinnar með 17 stig eftir átta leiki, þremur stigum meira en Ítalíumeistararnir sem sitja í fimmta sæti og eru nú sjö stigum frá toppnum.