Hermoso gaf í gær vitnisburð til spænskra saksóknara varðandi óumbeðna kossinn sem hún fékk frá nú fyrrum forsetanum eftir að spænska landsliðið hafði tryggt sér heimsmeistaratitilinn í fótbolta fyrr á þessu ári. Þar sagði hún meðal annars að sér hafi fundist hún vanvirt, bæði sem leikmaður og manneskja.
Nálgunarbann hefur verið sett á Rubiales á meðan að málið er í frekari rannsókn og fer sinn veg í dómskerfi Spánar. Rubiales neitar sök í málinu en hann má ekki setja sig í samband við Hermoso né koma nálægt henni á meðan að málið er í gangi.
Victor Francos, íþróttamálaráðherra Spánar, hefði viljað sjá sterkari viðbrögð og fordæmingu frá leikmönnum spænska karlalandsliðsins en raunin varð.
Í september fyrr á þessu ári las Alvaro Morata, fyrirliði liðsins, upp yfirlýsingu frá því þar sem sagði að hegðun Rubiales væri óásættanleg. Borja Iglesias, sem á aðeins nokkra leiki að baki fyrir spænska landsliðið, dró sig úr landsliðinu en hefur nú gefið kost á sér á nýjan leik eftir að Rubiales sagði af sér.
„Ég hefði viljað sjá þá afdráttarlausari í fordæmingu sinni á því sem átti sér stað. Þá finnst mér yfirlýsingin vera þess efnis að þeir hafi komið sér saman á lægsta samnefnaranum. Ég hefði viljað sjá þá láta meir í sér heyra.“