Danmörk vann San Marinó, 1-2, í undankeppni EM 2024 í gær. Rasmus Højlund, leikmaður Manchester United, kom Dönum yfir á 42. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik.
Á 61. mínútu gerðist hið ótrúlega, að San Marínó-menn jöfnuðu með marki Alessandros Golinucci. Þetta var fyrsta mark San Marinó í leik í undankeppni EM í fjögur ár og fyrsta markið í keppnisleik í tvö ár.
Yussuf Poulsen bjargaði hins vegar andliti Dana þegar hann skoraði sigurmark þeirra þegar tuttugu mínútur voru eftir.
Þrátt fyrir sigurinn voru danskir fótboltaáhugamenn með óbragð í munni enda ekki á hverjum degi sem jafn sterkt lið og Danmörk fær á sig mark gegn San Marinó og þarf að hafa fyrir sigri á liði sem er í 207. sæti styrkleikalista FIFA.
Morten Bruun gaf dönsku leikmönnunum engan afslátt í einkunnagjöf sinni fyrir TV 2 eftir leikinn.
Hvorki fleiri né færri en sex leikmenn danska liðsins fengu lægstu einkunn, eða ás, þar á meðal öll varnarlínan. Þrír leikmenn fengu tvist sem og þjálfarinn Kasper Hjulmand.
Poulsen fékk hæstu einkunnina, eða sjö. Í umsögn um frammistöðu hans segir einfaldlega: Takk fyrir þig, Yussuf Poulsen!
Danir eru í 2. sæti H-riðils undankeppninnar og geta tryggt sér sæti á EM með sigri á Slóvenum í næsta leik sínum.