Morgunblaðið greindi frá andláti Páls en þar kemur fram að hann hafi gengið í barnaskóla Siglufjarðar, misst báða foreldra sína aðeins 11 ára gamall og var sendur í vistir á bæjum. Hann komst í nám við Héraðsskólann í Reykholti í Borgarfirði en flutti síðan til Reykjavíkur.
Í Reykjavík sneri Páll sér óskiptur að viðskiptum og eignaðist Japönsku bifreiðasöluna. Reksturinn var þungur fyrstu árin en Páll lét hvergi deigan síga og seldi fyrsta Toyota-bílinn 1965. Morgunblaðið hefur eftir Páli að hann hafi fljótt fengið á tilfinninguna að Toyota væru bílar sem Íslendingum líkaði við. Og þar hafði hann rétt fyrir sér. Hann stofnaði ásamt fjölskyldu sinni P. Samúelsson ehf., Toyota-umboðið, 17. júní 1970. Reksturinn gekk blússandi vel en árið 2005 seldi Páll starfsemina. Páll lét til sín taka í umhverfismálum og studdi menningarverkefni í sinni tíð.
Eftirlifandi eiginkona Páls er Elín Sigrún Jóhannesdóttir en hún er fædd 1934. Börn þeirra eru Jón Sigurður, f. 1953, verslunarmaður; Bogi Óskar, f. 1962, viðskiptafræðingur, og Anna Sigurlaug, f. 1974.