Margir hafa verið nefndir til sögunnar og orðaðir við Vesturbæjarfélagið og nú síðast Ólafur Ingi Skúlason.
Formaður knattspyrnudeildar KR vildi ekki staðfesta nein nöfn í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar.
En hver er staðan á þjálfaraleit KR-inga?
„Í lok tímabils og eftir að það varð ljóst að við myndum gera þessar breytingar þá settumst við niður og höfum reynt að vinna þetta eins faglega og hægt er, með þeim formerkjum að vanda okkur og flýta okkur hægt,“ sagði Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, í samtali við Aron Guðmundsson.
Stjórnin fær tíma til að finna besta manninn í starfið.
„Þó að allir vilji klára þessi þjálfaramál sem fyrst þá erum við ekki undir pressu. Við viljum bara vanda okkur og höfum átt ágætis samtal við nokkra aðila en ekki fjölmarga eins og einhverjir vilja meina. Við viljum vanda okkur og gera rétt af því að við erum ekki undir pressu. Það er enn þá bara októbermánuður,“ sagði Páll en hver er tímaraminn?

„Við vorum að vonast til að hlutirnir myndu klárast í upphafi þessarar viku og við stefnum enn á það,“ sagði Páll. Koma enn nokkrir til greina eða eru þeir komnir niður á einn?
„Við erum alla vega komnir á þann stað að við vonumst til að geta klárað ráðningu á allra næstu dögum,“ sagði Páll.
„Þetta hefur ekki tekið lengri tíma en við áttum von á. Við vorum að gefa okkur smá tíma. Það er réttur hálfur mánuður síðan að tímabilið kláraðist. Leikmenn eru í frí. Þetta hefur hvorki tekið lengri né styttri tíma. Þetta er farvegurinn í ljósi þess að við viljum bara vanda okkur,“ sagði Páll.
Það hefur verið fullyrt í hlaðvarpsþáttum að Ólafur Ingi Skúlason verði næsti þjálfari liðsins.
„Ég ætla ekki að gefa upp nein nöfn á þessum tímapunkti. Það hefur margt verið fullyrt undanfarið í þessum hlaðvörpum. Ég held að það sé búið að nefna alla þjálfara í tveimur efstu deildunum og bendla þá við okkur á einhverjum tímapunkti sem er fjarri lagi. Við höfum rætt við nokkra aðila,“ sagði Páll.