Börsungar höfðu yfirhöndina stærstan hluta fyrri hálfleiks, en munurinn á liðunum varð þó aldrei meiri en tvö mörk. Gestirnir í Telekom Veszprém náðu þó forystunni undir lok fyrri hálfleiks og leiddu með tveimur mörkum að honum loknum, 17-19.
Gestirnir mættu svo ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og náðu fljótt fimm marka forskoti. Mestur varð munurinn sjö mörk, en gestirnir unnu að lokum nokkuð öruggan fimm marka sigur, 35-41.
Með sigrinum lyfti Telekom Veszprém sér upp að hlið Barcelona í efsta sæti riðilsins. Bæði lið eru nú með tíu stig eftir sex leiki, tveimur stigum meira en GOG og Íslendingalið Magdeburg sem sitja í þriðja og fjórða sæti.