Midtjylland vann Lyngby 2-1 í eina leik kvöldsins í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Andri Lucas Guðjohnsen skoraði mark gestanna.
Það má segja að um sannkallaðan Íslendingaslag hafi verið að ræða í kvöld þar sem Sverrir Ingi Ingason bar fyrirliðabandið hjá heimamönnum á meðan allir fjórir Íslendingarnir í liði Lyngby – Kolbeinn Birgir Finnsson, Gylfi Þór Sigurðsson, Sævar Atli Magnússon og Andri Lucas – voru í byrjunarliðinu.
Bæði lið hafa byrjað tímabilið ágætlega miðað við síðasta tímabil. Það voru hins vegar heimamenn sem byrjuðu betur í kvöld en Dario Osorio kom þeim yfir eftir undirbúning Adam Gabriel strax á 10. mínútu.
Þegar 22 mínútur voru liðnar af leiknum fékk Gylfi Þór gult spjald og virtist það kveikja í Lyngby því aðeins mínútu síðar skoraði Andri Lucas með góðri afgreiðslu eftir undirbúning samherja síns í framlínu Lyngby, Frederik Gytkjaer.
Staðan 1-1 í hálfleik en í upphafi síðari hálfleiks, á 47. mínútu, skoraði Gabriel það sem reyndist sigurmarkið. Sævar Atli og Gylfi Þór voru teknir af velli á 77. mínútu er Freyr Alexandersson fjölgaði í sókninni.
Allt kom fyrir ekki og eftir að Freyr nældi sér í gult spjald á 95. mínútu var flautað til leiksloka, lokatölur 2-1.
SNÆVERT NEDERLAG I HERNING #SammenForLyngby pic.twitter.com/XQbeDGtQM2
— Lyngby Boldklub (@LyngbyBoldklub) October 27, 2023
Midtjylland fer með sigrinum upp í 4. sæti með 24 stig, aðeins tveimur minna en topplið FC Kaupmannahöfn. Lyngby er í 7. sæti með 15 stig.