Sálfræðingar og sérþjálfaðir lögreglumenn hafa rætt við manninn í nótt, að því er fram kemur hjá Guardian. Samkvæmt staðarlögreglunni hafa yfirvöld átt í góðum samskiptum við manninn miðað við aðstæður.
Upp úr klukkan átta á staðartíma í gærkvöldi keyrði maðurinn inn um hlið á vellinum, skaut tvisvar upp í loft og kastaði tveimur brennandi flöskum út úr bílnum á ferð. Eiginkona mannsins er sögð hafa haft samband við lögreglu í gær af ótta við að maðurinn myndi reyna að ræna börnunum þeirra.
Eins og fyrr segir er talið að hjónin eigi í forræðisdeilu og lýsir lögreglan í Þýskalandi ástandinu sem gíslatöku. Mikill viðbúnaður hefur verið á vettvangi í nótt og fjölda flugferða hefur verið frestað. Að minnsta kosti 3.200 farþegar hafa lent í seinkunum eða töfum á flugi vegna ástandsins.